Við erum umlukin fjöllum. Við erum umlukin hafi. Við erum umlukin orðum. En getum við notað orðin til þess að segja það sem við þurfum og þráum? Ná orð yfir öll undrin, allt ógeðið? Geta þau komið á óvart, komið aftan að okkur, komið okkur til að staldra við?
Svikaskáld hafa alltaf farið sínar eigin leiðir til að nálgast orð, nota orð. Aðferðir þeirra hafa vakið forvitni og furðu, og í vinnustofunni fá þátttakendur að kynnast þeim á eigin skinni. Orð fá að spretta fram, endurkastast af umhverfi, erkitýpum og öðrum skáldum. Þeim verður stolið og skilað og stolið aftur. Þeim verður beint í allar höfuðáttir, þau verða sögð eða ósögð. Skrifuð, prentuð eða leyst upp í vindinum.
Við leitum fanga í náttúrunni, skoðum gjörðina sem það er að skrifa, vinnum með ávörp, ritúöl, ljóðtexta, prósa, samtöl og flæði. Þátttakendur munu kynnast fjölbreyttum hliðum skapandi skrifa og læra að nýta hin ýmsu tól úr verkfærakistu rithöfundarins. Unnið verður með kveikjur og flæðandi skrif, daglegt líf listamannsins og áskoranir- að sækja sér innblástur og tileinka sér tækni, lestur og deilingar. Þátttakendur smiðjunnar munu læra inn á sjálfsútgáfu, búa til bókverk og skoða performansinn sem felst í upplestri. Vinnuaðferðir Svikaskálda byggja á trausti og samstöðu. Í kollektívinu vinnum við með skeiðklukku, skrifum og deilum því sem við köllum gums. Með samræðunni og samverunni fæðist alltaf eitthvað nýtt og dularfullt.
Svikaskáld er sex kvenna skáldakollektív. Saman hafa þær gefið út þrjár ljóðabækur og síðast skáldsöguna Olíu (2021) sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þær hafa haldið fjölmargar ritsmiðjur fyrir ungt fólk og staðið fyrir mánaðarlegum ljóðakvöldum í Gröndalshúsi.
Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er rithöfundur og sviðslistakona. Hún hefur samið og unnið að leiksýningum, gjörningum, myndlistarverkum hérlendis og erlendis. Ritverk hennar og ljóð hennar hafa birst í ýmsum útgáfum, á sviði og heyrst í útvarpi. Hún hefur birt ljóð í bókum Svikaskálda en ljóðabók hennar Sítrónur og náttmyrkur kom út haustið 2019. Ljóðabókin Urðarflétta er væntanleg í haust.
Melkorka Ólafsdóttir er tónlistarkona og skáld. Hún hefur skrifað ljóð frá barnsaldri og gefið út ljóðaheftin Unglingsljóð (2000) og Ástarljóð (2004), ásamt ljóðabókinni Hérna eru fjöllin blá (2019). Ljóð eftir hana hafa m.a. birst á Starafugli og í bókum Svikaskálda en Melkorka hefur auk þess skrifað fyrir ýmis tækifæri og tilefni, t.d. í Stundina og fyrir Víðsjá. Melkorka lauk mastersnámi í ritlist frá HÍ vorið 2018. Undanfarin 15 ár hefur hún starfað sem tónlistarkona og verkefnastjóri í Hörpu, en hefur nýverið tekið við starfi dagskrárgerðarmanns á RÚV.